Tónmennt og tónmenntakennsla

Tígladansinn

tígullTil að dansa tígladansinn þarf fjóra þátttakendur í hóp. Tígladansinn virkar þannig að þátttakendur raða sér í hornin fjögur á ímynduðum tígli. Í stað þess að nemendur horfi inn í tígulinn og á hvern annan, eiga þeir að snúa í sömu átt. Upphafsstaða gæti til dæmis verið þannig að allir snúi í átt að gluggavegg stofunnar. Til að byrja með, leiðir sá dansinn sem stendur fremstur í tíglinum, í þessu tilfelli er það sá sem er næstur gluggaveggnum. Hinir þrír reyna að herma eftir leiðtoganum svo sannfærandi að ekki sé hægt að sjá að atriðið sé óæft. Þegar sá sem stendur fremstur er orðinn leiður á að vera leiðtogi snýr hann sér í 90 gráður til hægri og hinir gera eins. Þá er kominn nýr leiðtogi, eða sá sem stendur nú fremstur í tíglinum.

Hvaða tónlist sem er virkar með tígladansinum og um að gera að prófa sem fjölbreyttasta tónlist og kynna nemendum um leið fyrir ólíkum tónlistarstefnum.