Tónmennt og tónmenntakennsla

Hljóðtilraunir

lab guyUm Verkefni 1-6

Markmiðin með þessum verkefnum er að gefa nemendum tækifæri til að gera verklegar tilraunir með hljóð og hljóðgjafa. Verkefnin gefa tilefni til umræðna bæði fyrir og eftir tilraunirnar. Áður en tilraunir eru framkvæmdar er hægt að ræða með nemendum hvað þeir telji að muni gerast í tilrauninni. Eftir tilraunir er tilvalið að ræða niðurstöðurnar og bera saman við væntingarnar sem settar voru fram áður en hafist var handa.
Það sem nemendur geta lært af þessum verkefnum er eðli hljóðheimsins og hvernig hljóð og hljóðbylgjur hegða sér. Þeir geta lært að setja fram tilgátur og sannreyna þær. Svo má nota þekkinguna sem myndast til að hanna nýja hljóðgjafa með öðrum efnum og eins má prófa að hanna nýjar hljóðtilraunir.

Hljóðtilraunirnar eru skemmtilegar fyrir alla, fullorðna sem börn og eru gott dæmi um verkefni sem reyna á hugann og kenna manni eitthvað nýtt án þess að þurfa að lesa það af bók. Það er líka mikilvægt að átta sig á því að sumt lærir maður betur með því að framkvæma en með því að hlusta eða lesa. Ekki er nauðsynlegt að leggja þessi verkefni fyrir öll í einu og það er heldur ekki endilega best að gefa fyrirmælin skriflega. Gott getur verið að gefa munnleg fyrirmæli, sérstaklega hjá yngri nemendum.

Verkefnin byggjast á margreyndum tilraunaverkefnum með ólíka hljóðgjafa þar sem unnið er með eðlisfræði hljóðmyndunar. Notast er við endurunnin ílát, spotta, teygjur, plastfilmur og fleira til að rannsaka hvað þarf til að búa til háa og djúpa tóna og magna þá upp.

Verkefni 1-6:
Hoppandi salt
Plastmálsmagnarinn
Syngjandi þráður
Tóneðli strengsins
Ísboxgítar
Krukkuspil

Hljóðtilraunir á vefnum