Tónmennt og tónmenntakennsla

Rytmaæfingar með grjónapoka

Litlir grjónapokarÞegar verið er að vinna með rytmaskyn getur verið gott að nota áþreifanlega leikmuni til að nemendur upplifi rytma á fleiri en einn máta og skilji við hvað er átt þegar talað er um hugtök eins og púls, taktslag og mismunandi rytmamynstur. Gott er að nota mjúka grjóna- eða baunapoka en einnig má nota tuskudýr sem innihalda grjón eða baunir. Ef skólinn á ekkert slíkt gæti það verið verkefni í handavinnu að búa til slíka poka.

Að láta hlutinn ganga í takt
Markmið leiksins er að nemendur fái tilfinningu fyrir púls eða reglulegu taktslagi.
Nemendur sitja í hring á gólfinu, allir með einn hlut í höndunum, til dæmis grjónapoka.
Þegar tónlistin byrjar telur stjórnandinn inn taktinn og nemendur eiga að færa sinn hlut samtaka til vinstri á taktslaginu (púls tónlistarinnar). Á næsta slagi taka nemendur hlutinn sem kom frá hægri og færa til vinstri og þannig koll af kolli. Hlutirnir í hringnum færast því á púlsslögunum frá einum nemenda til þess næsta í hringnum.

Að kasta grjónapoka í takt
Annað hvort standa allir nemendur saman í hring eða í minni hópum. Í hverjum hring er einn grjónapoki. Í upphafi er ákveðið hvort pokinn eigi að ganga réttsælis eða rangsælis við tónlist í 4/4 sem kennari spilar eða setur á fóninn. Þegar hópur hefur náð tökum á verkefni A útskýrir kennari verkefni B og svo koll af kolli. Í upphafi hvers liðs (A-D) telur kennari taktslögin á upphátt til að auka líkurnar á því að nemendur upplifi taktinn.

A: Nemendur eiga að kasta grjónapokanum á 1. og 3. slagi en grípa á 2. og 4. slagi.

B: Nemendur eiga að kasta grjónapokanum á 1. slagi en grípa á 2. slagi.
Á 3. og 4. slagi eiga grjónapokarnir að vera kyrrir hjá þeim nemendum sem gripu á slagi 2. Hér er verið að vinna með þögnina.

C: Nemendur eiga að kasta grjónapokanum á 4. og 2. slagi en grípa á 1. og 3. slagi.

D: Nemendur eiga að kasta grjónapoka á 4. slagi og grípa á 1. slagi.

Í framhaldi af æfingum með grjónapoka er gott að prófa Að stíga taktinn í hring æfingarnar, þær má nálgast HÉR.