Tónmennt og tónmenntakennsla

Nafnarytmi yfir grunnklapp

Eftirfarandi tvo nafnarytmaleiki er hægt að leika eina og sér en gott er að þjálfa grunnklappið áður með þessum tveimur:
Hægri – vinstri: Látum hlutinn ganga og Látum „orðið“ ganga

klapphringur2Nafnarytmi yfir grunnklapp – útfærsla eitt:
Nemendur sitja í hring og halda takti með grunnklappinu læri – klapp – læri – klapp …
Hver nemandi á eftir öðrum segir nafnið sitt í rytma sem passar ofan á grunnklappið. Athugið að sum nöfn bjóða upp á nokkrar rytmaútfærslur og nemandinn ræður hvaða rytma hann velur.

Umræða: Hvaða nöfn voru eins í rytma? Væri hægt að segja fleiri nöfn á sama máta? Væri hægt að segja nöfnin í öðrum rytma? Geta nemendur klappað nafnarytmana á meðan að kennari og lítill hópur nemenda gera grunnklappið?

Nafnarytmi yfir grunnklapp – útfærsla tvö, að láta nafnið ganga:
Nemendur sitja í hring og halda takti með grunnklappinu læri – klapp – læri – klapp …
Nemandi númer eitt segir nafnið sitt endurtekið, í rytma yfir grunnklappið. Þegar nafnið hefur verið sagt fjórum sinnum bætist nemandi númer tvö við með sitt nafn og svo koll af kolli, þar til allir nemendur hljóma í einu.

Þegar kennari gefur merki eða segir nemendum að „skipta“ eiga nemendur að segja nafn þess sem situr hægra megin við þá. Þeir eiga að gæta þess að halda nafnarytmanum sem eigandi nafnsins ákvað. Leiknum lýkur þegar kennarinn er búinn að láta nemendur „skipta“ það oft um nafn að þau eru komin aftur til réttra eiganda. Það tekur yfirleitt nokkrar tilraunir að komast heilan hring.

Umræða: Er hægt að spila nafnarytmana á hljóðfæri? Hvernig kemur það út?

Fleiri hugmyndir: Notið dýraheiti, heiti ávexta og grænmetis eða lönd í stað nafna nemenda.