Í spegladansinum vinna tveir og tveir nemendur saman, annar þeirra leikur spegilinn en hinn spegilmyndina. Nemendur standa á móti hvor öðrum, sá sem er spegillinn stjórnar hreyfingunum en sá sem er spegilmyndin þarf að fylgja hreyfingunum eftir. Hreyfingarnar eiga að vera í takt við þá tónlist sem leikin er. Kennari og nemendur geta ákveðið fyrirfram hvenær nemendur skipta um hlutverk eða ákveðið einhverja hreyfingu sem táknar að nemendur eigi að skipta um hlutverk.
Ef nemendur eru leiknir í dansinum og hafa gaman að, má bæta eftirfarandi þætti við: Sem fyrr vinna tveir nemendur saman. Þeir ákveða sín á milli hvor byrjar sem spegillinn og búa jafnframt til leynimerki sem snýr hlutverkunum við. Þeir fá ákveðinn tíma til að dansa fyrir hina nemendur bekkjarins, til dæmis eina mínútu. Áhorfendur fá það hlutverk að finna út hvor dansarinn byrjaði sem spegill og hvor endaði, hversu oft þeir skiptu um hlutverk og hvert leynimerkið var.