Tónmennt og tónmenntakennsla

Stoppdansinn

stopp-dans

Flestir þekkja einhverja útgáfu af stoppdansi. Það er þægilegt að grípa í stoppdans til að brjóta upp tíma, veita nemendum tækifæri á útrás og hlægja svolítið. Þar að auki er hægt að nota hann til að ná fram í nemendum fjölbreyttri tjáningu í dansi. Í grunninn er dansinn þannig að kennari spilar einhverja tónlist og þegar hann stoppar eiga nemendur að frjósa eins og skot. Þegar tónlistin hefst að nýju byrja nemendur aftur að dansa. Bilin á milli dansstoppa eru ekki regluleg heldur þurfa nemendur að fylgjast vel með.

 

Útfærslur:

1. Nemendur fá að velja tónlistina sem kennarinn spilar
Nemendur geta valið lag á staðnum en ef stoppdans er dansaður reglulega gæti verið skemmtilegt að fá nemendum það hlutverk að skiptast á að koma með undirbúið lag. Þá gætu Siggi og Gunna komið með sitthvort lagið þennan föstudaginn, Randver og Birta föstudaginn eftir það og svo koll af kolli. Kennari getur gefið leiðbeiningar um þetta val, til dæmis að nemendur eigi að koma með sitt uppáhaldslag, uppáhaldslag pabba/mömmu, lag sem minnir á sumarið, uppáhaldslag litla/litlu frænda/frænku/systur/bróður, rokklag, hippalag, reggí, blús, þjóðlag, elektró, rapp, jazz og svo framvegis.

2. Litlir nemendahópar búa til lagalista á youtube
Valið gæti verið frjálst en kennari gæti einnig stýrt vali eftir umfjöllunarefni vikunnar, til dæmis ákveðnar tónlistarstefnur, ákveðið textaefni, lög frá ákveðnum löndum og svo framvegis.

3. Minnis-stoppdans
Nemendur og kennari ákveða stellingar sem nemendur eiga að frjósa í þegar lögin eru stoppuð. Til dæmis að fyrst eigi þeir að stoppa með hendur á gólfi, næst með hendur á höfði og að lokum sitjandi á rassinum. Þegar röðinni er lokið þá byrjar hún aftur á stellingu eitt. Með þessu móti munu nemendur mögulega dansa á nýjan máta þar sem þeir eru að hugsa um að vera tilbúnir í stellinguna sem þeir eiga að frjósa í, til dæmis að hafa hendur nálægt gólfi. Auk þessa þjálfar dansinn minnið og einbeitingu þar sem nemendur þurfa að muna hvernig á að stoppa. Þeir sem stoppa í rangri stellingu gerast dómarar/áhorfendur eða fá eitthvert annað hlutverk. Ef nemendahópurinn er góður í að muna röð stellinga má bæta við fleirum. Geta þeir munað 6 stellingar í röð?

4. Hljómsveitar-stoppdans
Nokkrir nemendur og kennari mynda hljómsveit sem spilar undir dansinn. Í hljómsveitinni þarf að vera einn stjórnandi sem gefur merki þegar hún á að stoppa og byrja aftur. Þeir nemendur sem klikka á því að frjósa, fá að ganga í hljómsveitina. Hljómsveitin reynir stundum að plata dansarana og þykist ætla að stoppa en heldur áfram.