Eftirfarandi verkefni byggja á því að nemendur spili saman í rytma-hljómsveit, hafi gaman og læri að hlusta hver á annan, þjálfi samhæfingu og fái einhvern skilning á lengdargildi nótna og þagna og jafnvel innsýn í nótnalestur.
Til þess að nemendur fái tilfinningu fyrir mismunandi nótnagildum eða rytmamynstri getur verið gott að nota orðarytma. Þá eru ákveðin orð eða setningar paraðar við ákveðin rytmamynstur. Með því móti erum við að nota fleiri skilningarvit til að kenna sama hlutinn, sem og byggja á einhverju sem nemendur kunna og skilja nú þegar. Í þessu verkefni köllum við þessa pörun rétt á matseðli.
- Hér er dæmi um einn rétt á sambamatseðlinum:
Nemendur þurfa alls ekki að kunna nótnalestur til að spila rétti sambamatseðilsins, aftur á móti er hægt að nota matseðillinn sem grunn að nótnalestri.
HÉR má finna matseðil fyrir átta hljóðfæri en vinsamlegast lestu leiðbeiningarnar hér að neðan.
1. Til að byrja með skiptir ekki máli hvaða ásláttarhljóðfæri nemendur og kennari eru með en allir þurfa að hafa eitthvert hljóðfæri.
2. Herminám: Kennari segir hvern rétt á matseðlinum (orð eða setning sem myndar ákveðið rytmamynstur) í réttum rytma og nemendur endurtaka.
3. Herminám: Kennari slær púlsinn og segir hvern rétt í réttum rytma og nemendur endurtaka. Sambamatseðilinn sem hér er boðið upp á er í 4/4. Kennari gæti þurft að hjálpa nemendum að átta sig á því hvenær þeirra taktur hefst. Það gæti hann gert með því að gefa handamerki, flauta í sambaflautu eða hvernig sem hentar.
4. Þegar nemendur hafa náð ágætum tökum á því að segja réttina þá má prófa að spila þá. Kennari slær áfram púlsinn undir, segir og spilar hvern rétt og nemendur endurtaka.
5. Þegar hér er komið við sögu eru nemendur búnir að hlusta á, fara munnlega með og spila rytmamynstrin áður en þeir sjá nótnaskriftina. Nú er að skipta nemendum í hópa eftir hljóðfærum. Hver hljóðfærahópur fær einn rétt (eitt rytmamynstur) til að æfa sig á. Hér er góður tími til að dreifa blöðum til hópanna þar sem hver réttur er skrifaður sem og rytmamynstrið með nótnaskrift. Ef þú ert ekki nú þegar búin(n) að ná þér í matseðilinn hér að ofan, skaltu gera það núna svo þú skiljir hvað átt er við.
6. Á meðan að hóparnir æfa sig á sínum rétti gengur kennari á milli og hlustar eftir því hvort nemendur séu að vinna með réttan púls undir rytmanum og hvort þeir virði þagnirnar. Kennari aðstoðar nemendur eftir þörfum.
7. Sambahljómsveitin spilar! Nú eiga allir nemendur að setja sig í stellingar, kennari telur inn og tónleikarnir hefjast. Kennari spilar púlsinn, aðstoðar með talningu og gefur nemendum merki hvenær þeir eigi að koma inn ef þeir ruglast í talningunni.
Hvað er hægt að gera fleira með matseðilinn?
A. Þegar nemendur hafa náð góðum tökum á sínu rytmamynstri þá er gott að skipta um rétt á matseðlinum.
B. Skipta um hljóðfæri.
C. Púlssveit: Kennari biður einn eða nokkra nemendur um að slá púlsinn og halda hljómsveitinni saman. Með þessari aðferð verða nemendur meðvitaðari um að hlusta á alla í hljómsveitinni og samhæfinguna sem þarf að vera til staðar.
D. Hljómsveitarstjórinn: Einn nemandi stendur í miðjunni og fær það hlutverk að stjórna hljómsveitinni. Fyrir utan að telja í og enda lagið þá getur hljómsveitarstjórinn hækkað og lækkað í ákveðnum hljóðfærahópum sem og stoppað þá og sett þá aftur í gang. Hér þarf kennari að leggja inn hreyfingar sem nemendur geta notað til að stjórna.
E. Búa til nýjan matseðil!
E1: Nemendur finna ný orð fyrir rytmamynstrin úr fyrri matseðli.
E2: Nemendur koma með munnlegar tillögur að bæði nýjum orðum og rytmamynstrum. Kennari skráir niður hugmyndirnar og sýnir nemendum rytmamynstrið með nótnaskrift.
E3: Nemendum er skipt í litla hópa. Hver hópur fær nokkur spjöld frá kennara. Á hverju spjaldi er eitthvert nótna- eða þagnargildi. Nemendur raða spjöldunum saman og finna orð/setningu sem passar við rytmamynstrið. Kennari aðstoðar nemendur.