Hönd í hönd: kennsluefni í heimstónlist fyrir börn
Kennsluefnið „Hönd í hönd“ var samið með leikskólabörn í huga en hentar einkar vel fyrir yngstu börnin í grunnskóla. Í kennsluefninu má finna fjölbreyttar kennsluhugmyndir fyrir almenna bekkjarkennara þar sem til að mynda landafræði, menning, tungumál, myndmennt og tónlist koma við sögu.
Eftirfarandi lönd og tilheyrandi heimsálfur koma við sögu í kennsluefninu: Ástralía, Japan, Mexíkó, Sambía og Serbía.
Hér fá bekkjarkennarar í hendurnar kennsluefni þar sem lögð er áhersla á að kynna tónlist og þann menningarheim sem hún er sprottin úr. Í efninu má finna ýmsar grunnupplýsingar um heimsálfur og siði landanna sem lögin eru ættuð frá, sem og upplýsingar um löndin sjálf.
Tónlist er samofin menningu þjóða heimsins og segir einnig mikið um menningu þess samfélags sem hún er sprottin úr þar sem hún endurspeglar oftar en ekki sögu fólksins í landinu. Í kennsluefninu má finna söngva frá löndunum fimm. Textarnir eru bæði á upprunalegu máli og íslensk þýðing. Með því að hlusta á lögin og textana kynnast nemendur nýjum málhljóðum en það að syngja eða lesa textana getur aukið og eflt hljóðkerfisvitund þeirra. Síðast en ekki síst má finna ýmsar hugmyndir í kennsluefninu til að samþætta myndlist við landafræði og tónlist, enda samofin menningu þjóða.
Kennsluefnið byggir á tónlist af geisladisknum „Úr vísnabók heimsins“ sem Rauði kross Íslands gaf inn á hvern leikskóla árið 2005. Í kennsluefninu er bæði bent á leiðir til þess að nota geisladiskinn í tónlistarstarfi en jafnframt hvernig hægt er að nota tónlistina sem kveikju að fræðslu um aðra menningarheima. Í kennsluefninu og textabók sem fylgir geisladisknum má finna textana bæði á upprunalegu máli sem og íslenska þýðingu. Diskurinn var gerður að frumkvæði söngkonunnar Ellenar Kristjánsdóttur og Eyþórs Gunnarssonar píanóleikara og fengu þau til liðs við sig hóp barna af erlendu bergi brotin sem búsett eru á Íslandi. Börnin sungu barnalög frá sínu heimalandi og rann allur ágóði af sölu disksins til styrktar hjálparstarfi Rauða kross Íslands í sunnanverðri Afríku. Hægt er að nálgast og kaupa diskinn hér.
Kennsluefnið „Hönd í hönd“ er samið af Elfu Dröfn Stefánsdóttur árið 2009 sem lokaverkefni (B.Ed) við Menntavísindasvið, undir leiðsögn Elfu Lilju Gísladóttur.
Efnið má nálgast sem pdf skjal og er hægt að niðurhala því héðan og prenta út.
Með efninu fylgir greinargerð sem er ætlað að styðja við kennsluefnið og varpa ljósi á tilurð þess og tilgang. Þar má finna fræðilega umfjöllun um tónlistarkennslu ungra barna, fjölmenningarsamfélagið á Íslandi og tengingu við aðalnámskrá.
Jafnframt má finna kennsluefnið og greinargerðina í heild sinni á eftirfarand vefslóð http://hdl.handle.net/1946/4712